E-Book, Icelandic, Deutsch, Band 2, 281 Seiten
Reihe: Den russiske triologi
Davidsen Síðasti njósnarinn
1. Auflage 2021
ISBN: 978-87-26-64751-8
Verlag: SAGA Egmont
Format: EPUB
Kopierschutz: 6 - ePub Watermark
E-Book, Icelandic, Deutsch, Band 2, 281 Seiten
Reihe: Den russiske triologi
ISBN: 978-87-26-64751-8
Verlag: SAGA Egmont
Format: EPUB
Kopierschutz: 6 - ePub Watermark
Leif Davidsen (f. 1950) er danskur rithöfundur sem sérhæfir sig í spennusögum. Leif er blaðamaður að mennt og er með stóran feril í þeim geira. Ferill hans sem blaðamaður hefur haft mikil áhrif á skrif hans, þar sem þemað er oft á tíðum tengt pólitískum deilum, skreyttar leynilegum ráðagerðum. Lýsingar hans innihalda oft á tíðum þemu tengd ást, morðum og hraða, sem gerast á sögulegum staðsetningum og innihalda djúpstæðar merkingar tengdar fortíð söguhetjunnar.
Weitere Infos & Material
1
Hann leit niður á brakandi stíft dagblaðið og las greinina enn einu sinni, enda þótt hann kynni hana utanað. Hún var tenging hans við raunveruleikann. Hann hélt sér dauðahaldi í þetta kýrillíska letur til þess að tapa ekki glórunni. Hann las ekki. Það var erfitt í morgunbirtunni sem skarst eins og rautt strik yfir fjöllin. Sergej Míkhaílovits Zaikov studdi sig við blaðið og orð þess frá yfirvöldunum um að martröðinni mundi senn ljúka, eins og særður félagi styðst við hækju. Þeir voru að hverfa burt úr landinu. Hann átti að fara heim. Hann átti ekki að sitja hér uppi í fjallinu alla átján mánuðina og bíða eftir að falla fyrir óvinakúlu eða drepast úr leiðindum. Þegar hann dró sígarettureykinn djúpt oní sig og lokaði augunum hurfu fjöllin og svöl morgungolan og hann sá ekki lengur fyrstu eldana sem verið var að kveikja í þorpinu bak við jarðsprengjubeltið tveim kílómetrum utar í dalnum. Þess í stað sá hann stigaganginn heima í Moskvu þar sem Ludmilla bjó. Hann fann lykt af káli og gamalli steikingarolíu og heyrði fyrstu morgunformælingarnar og þurran tóbaks- og vodkahóstann gegnum þunnar hurðir og veggi meðan hann hljóp fimm hæðir niður tröppurnar á leið út í bæinn. Ludmilla lá eftir í rúminu og reykti og nennti ekki á fætur, en hann ætlaði heim í fínu íbúðina að skipta um föt hjá mömmu. Loftið mundi vera hrollkalt og nístandi og farið að ýra snjó úr þungum skýjum. Lödurnar voru þaktar brúnum forarklessum og ósuðu af illa brenndu bensíni, og nú var kominn tími til að taka fram skíðin sín og hlakka til vetrarins.
Sergej opnaði augun aftur. Hann heyrði í varðmanninum fremur en hann sá hann. Það skrölti í vopnum hans eins og hann væri kýr að brölta í tjóðrinu. Sergej sá brúna skothelda vestið og skuggann af hjálmi í gráblárri morgunskímunni sem lyfti fjöllunum upp við sjóndeildarhring þannig að það var eins og þau svifu í lausu lofti. Varðmaðurinn reykti, en Sergej vissi að það var tilgangslaust að skipta sér af því. Hasslyktinni sló fyrir vit hans og hún blandaðist reyknum frá sígarettunni hans. Það birti hratt og hann fór að grilla í einstök hús í þorpinu niðri í græna dalnum. Brún, lágreist húsin stóðu í þyrpingu við ána. Vatnið var silfurgrátt og streymdi hratt fram. Úti við sjóndeildarhring voru fjallshlíðarnar í skugga. Hann stóð undir felunetinu og lauk við sígarettuna. Hann lokaði augunum aftur og reyndi að sjá fyrir sér morgun í Moskvu.
Nú kem ég út um dyrnar. Ég hleyp við fót að strætisvagninum. Hann er troðfullur en ég finn mér stað aftast á pallinum við hliðina á fallegri stúlku með ólundarsvip. Hún horfir út á ferkantaða vörubílana sem blása frá sér bláum díselreyk. Hún er með prjónahúfu. Hún virðir mig ekki viðlits í fyrstu en að lokum tekst mér að tæla fram bros. Við stöndum klemmd hvort upp að öðru á afturpallinum og horfum út um skítugan gluggann. Það er alltaf að koma nýtt fólk inn í vagninn og það lyktar af Moskvu. Af brúnsápu og tannkremi frá verksmiðjunni í Leníngrad. Ég finn fyrir mjöðm hennar við mína. Hún er bústin en ung. Og ég velti fyrir mér hvort ég eigi að segja Ludmillu að ég sé á vakt í kvöld svo ég geti heimsótt þessa bústnu stúlku úr strætisvagninum í fínu íbúðina hennar þar sem hún býr með móður sinni, gamalli og heyrnardaufri. Veturinn er að koma og ég finn sápulyktina af hörundi hennar þegar vagninn beygir inn á Sadovaja og fer að erfiða upp brekkuna. Á götunni er örtröð af fólki á leið til vinnu og úr bakaríinu berst ilmur af nýju brauði.
Myndin leystist upp í huga hans. Þess í stað heyrði hann bílhljóð en þegar hann opnaði augun var þetta bara skröltið í rafalnum sem þrengdi sér inn í vitund hans þegar vindurinn breytti um átt og fór að blása að vestan.
Hann braut blaðaúrklippuna vandlega saman. Það var rifið upp í hana. Hann hafði ekki klippt hana út sjálfur heldur fundið hana á naglanum á kamrinum. Hann hafði tekið hana til handargagns. Hún hafði orðið að verndargrip. Þegar blöðin höfðu komið með þyrlunni ásamt öðrum pósti höfðu þeir verið of uppveðraðir til að klippa út og geyma. En hann taldi það vera góðs viti að hann hafði mörgum dögum seinna fundið opinberu tilkynninguna á naglanum sem stóð í staurnum við kamargatið. Snyrtilega rifin út. Hann var annars sammála óbreyttu hermönnunum um að bullið sem blaðamennirnir skrifuðu um stríðið átti ekki betra skilið en að hafna á naglanum.
Nú kom hljóðið sem rak hann á fætur í dögun á hverjum morgni. Hann sá á varðmanninum að það gerði hann órólegan líka. Hljóðið var eymdarlegt og langdregið og hljómaði eins og ásökun í fjallaskarðinu. Það hóf sig upp til þeirra. Fyrst stutt og lágvært en því lauk ævinlega með þessu langdregna og ógnandi ákalli. Sasja sagði að það minnti hann á úlfana heima í Síberíu. Hann hafði að vísu hvorki séð þá né heyrt í blokkinni sinni í Irkútsk en sögur afa hans voru honum runnar í merg og blóð. Sergej heyrði að mennirnir voru farnir að bæra á sér innan við tjalddúkinn. Þeir bölvuðu og rögnuðu í þrengslunum. Innan skamms mundi þetta enda með áflogum. Við hverju var að búast þegar fjórtán manns áttu að hírast saman á klettasyllu sem var ekki nema tuttugu metra löng? Sönglandi hvatning múllans til morgunbæna steig nú vægðarlaust upp til þeirra. Þetta var ómennskt hljóð. Þetta voru allt eintómir heiðingjar, að sníkjudýrunum í Kabúl meðtöldum. Sergej fann að hárin risu út um allan skrokkinn og hann teygði sig eftir hríðskotarifflinum við fætur sér til að finna öryggi í stálinu og sléttum viðnum í skeftinu. Nú mundi mótleikurinn koma bráðum, hugsaði hann. Vani, vani, vani. Hann heyrði þá bölva og svo barst hás rödd Voronja úr kassettutækinu. Sama sagan á hverjum morgni: söngur óvinanna neðan úr þorpinu og síðan tilraunir þeirra til að þagga niður í þessum skeggjaða djöfli með Vysotskíj. Þeir hittu á sönginn um úlfinn á öðru af þeim tveim böndum sem þeir höfðu með honum. Varðmaðurinn henti frá sér sígarettunni og renndi kíkinum eftir sjóndeildarhringnum. Í æfingabúðunum hafði þeim verið sagtað morgunninn væri hættulegasti tími sólarhringsins. Þeir voru nú búnir að hengslast hér í átta mánuði en höfðu ekki hleypt af skoti nema þegar þeir voru skakkir af hassi og skutu í mark á niðursuðudósir eða köstuðu handsprengjum til að reyna að sprengja jarðsprengjurnar í loft upp. Hann var hættur að fá samviskubit yfir að skrifa í skýrsluna að þeir hefðu hafið skothríð á meint óvinalið. Það var hvort eð er allt að fara til fjandans bæði hér og heima. Allt sem hann hafði eitt sinn...




