E-Book, Icelandic, Deutsch, 190 Seiten
Christensen Hermann
1. Auflage 2024
ISBN: 978-87-27-08635-4
Verlag: SAGA Egmont
Format: EPUB
Kopierschutz: 6 - ePub Watermark
E-Book, Icelandic, Deutsch, 190 Seiten
ISBN: 978-87-27-08635-4
Verlag: SAGA Egmont
Format: EPUB
Kopierschutz: 6 - ePub Watermark
Lars Saabye Christensen (1953) er norsk/danskur rithöfundur og einn vinsælasti norski rithöfundurinn af sinni kynslóð. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir skrif sín og hefur verið aðlaður af bæði norsku og frönsku ríkisstjórnunum. Árið 2018 fékk hann Amanda kvikmyndaverðlaunin fyrir framlag sitt til norskrar menningar, en hann er einnig afkastamikill handritshöfundur.
Weitere Infos & Material
1
HAUST
Hermann reigir höfuðið aftur á bak og starir upp í tréð þar sem gul og rauð laufblöðin eru orðin laflaus. Milli grannra, svartra greinanna sér hann grilla í himininn sem skýin æða um. Hann svimar dálítið af því að standa svona, eins og það sé hann sem þjóti áfram á fullri ferð. En það er líka gott, allavega í smástund, svo lengi sem hann ekki stímir á Einsteinunginn. Hann lokar augunum en er næstum dottinn um koll og opnar þau strax aftur og andar léttar. Hann er ennþá í Frognerparken og hefur ekki færst svo mikið sem einn sentímetra.
Svo sér hann fyrsta laufblaðið falla, það hangir yst á grein og lítur ekki út fyrir að vera sérstaklega sterklegt. Vindurinn þeytir því hring eftir hring, svo svífur það í áttina að gosbrunninum líkt og sprunginn dómpápi. Hermann eltir það hlaupandi um leið og hann starir á rauða, ókyrra punktinn í loftinu. Vindurinn feykir laufblaðinu upp og niður, Hermann tekur á sprett sikksakkandi eftir mölinni og vonar að hann hafi hnýtt tvöfaldan kerlingarhnút á skóreimarnar í morgun. Svo er eins og laufblaðið eða vindurinn gefist upp, það lækkar þreytulega flugið beint fyrir framan Hermann. Hermann snarstoppar, opnar munninn upp á gátt, teygir fram álkuna og grípur laufblaðið með munninum alveg eins og soltin mauræta.
Og einmitt þá finnur hann á sér að einhver er að fylgjast með honum, einhver stendur á bak við eina styttuna, hann sér glytta í bleikan bakpoka. Hann stendur grafkyrr með laufblaðið í munninum. Það er ekki sérstaklega gott á bragðið en hann hefur smakkað það verra, til dæmis stífu himnuna á súkkulaðibúðingnum og skánina á mjólkinni eða álinn sem pabbi hans veiðir niðri á bryggju. Skyndilega hverfur bakpokinn úr augsýn en hann er viss um að það er einhver ennþá þarna fyrir aftan styttuna af stóru konunni sem er með að minnsta kosti sextán krakka hangandi í hárinu. Og á meðan hann stendur þannig og veit ekki alveg hvað hann á að gera gleypir hann laufblaðið. Og það er frekar undarlegt að hugsa til þess að laufblaðið sem fyrir stundarkorni hékk á stóru tré sé nú niðri í maga hans. Kannski þarf hann ekki að borða grænmeti með kvöldmatnum.
Þá kemur hún fram undan styttunni. Rúbý, Rúbý bekkjarsystir hans. Hún hefur verið fyrir aftan styttuna allan tímann. Hermann er ekki viss um að hann sé neitt sérstaklega hrifinn af því. Rúbý er með mikið, rautt hár. Sumir halda því fram að það séu fimm fuglshreiður í því. Hún er með hendurnar fyrir aftan bak eins og hún búi yfir miklu leyndarmáli. Hún horfir undarlega á Hermann og dregur annað augað í pung.
– Borðarðu laufblöð? spyr Rúbý.
– Stundum.
– Ég þekki engan annan sem borðar laufblöð.
– Þá þekkirðu ekki marga, segir Hermann og nær í bakpokann sinn sem er hjá bekknum.
Rúbý eltir hann og lítur betur á andlit hans.
– Ertu að elta mig? spyr Hermann.
Rúbý hlær hátt og enn fleiri laufblöð falla af trjánum.
– Ég var að gefa öndinni minni gulrót og pylsu. Kannski verðurðu veikur. Þú lítur út fyrir að vera orðinn veikur.
– Ég er frískur eins og fiskur, segir Hermann. Afi hans segir þetta alltaf, þótt hann liggi í himnasæng uppi á fjórðu hæð og geti ekki gengið. En það er ef til vill þess vegna sem hann segir nákvæmlega þetta, frískur eins og fiskur.
– Fiskar éta ekki laufblöð, segir Rúbý.
– Þeir éta ánamaðka. Það er verra.
Þau fylgjast að yfir brúna. Fyllibytta sefur fyrir neðan styttuna af Sinnataggen og karlinn er næstum því jafnreiður og hann á svipinn. Laugarnar í Frogner-sundlaugunum eru tómar og grænar og tíu metra pallurinn nær alla leið til himna. Hann fer að rigna. Niðri á tjörn synda endurnar hver í kringum aðra og vita ekki neitt. Svanur breiðir úr vængjunum en nennir svo ekki neinu og fellir þá saman aftur. Rúbý hallar sér yfir grindverkið og bendir.
– Þarna er öndin mín!
– Öndin þín?
– Sú sem ég gef.
– Hvernig getur þú greint á milli andanna?
Rúbý snýr sér að Hermanni, hristir höfuðið og mikið, rautt hárið á henni sveiflast upp og niður en samt fljúga engir fuglar út úr því.
– Segi þér það ekki.
En svo bætir hún snarlega við: – Kannski seinna.
Þau halda áfram í áttina að hliðinu án þess að segja orð en þegar þau staðnæmast úti á Kirkeveien færir hún sig nær honum og starir lengi á andlitið á honum. Hermann verður órólegur.
– Lít ég nú út fyrir að vera veikur?
– Augun í þér eru alveg græn! Og nefið á þér er appelsínugult!
Þar með er hún hlaupin í áttina upp að Majorstua. Fyrir framan styttuna af Oscar Mathiesen snýr hún sér við og vinkar en Hermann sér það ekki því hann er lagður af stað til Skillebekk. Og honum líður verulega illa. Kannski verður hann veikur eftir allt saman, kannski handleggirnir á honum fari að vaxa eins og greinar og einhverjum detti í hug að nota þá í staðinn fyrir eldivið um veturinn. Hann finnur fyrir laufblaðinu í maganum, það liggur á skjön og kitlar hann. Handleggirnir eru farnir að stífna, hann verður að þrýsta þeim að líkamanum. Hann horfir á sig í speglinum hjá hárgreiðslustofunni við Bygdøy allé og það er svona spegill þar sem maður getur líka séð sig í prófíl ef maður beygir sig fram og snýr höfðinu. Og þá fyrst verður hann skelkaður. Hann þekkir sig ekki. Nefið er eins og köngull, eyrun eins og göt eftir spætu og hárið er eins og ljósgrænum mosa hafi verið plantað fyrir ofan ennið. Hermann stingur af áður en sú feita kemur auga á hann og felur sig í porti. Þar tekur hann ákvörðunina. Hann stingur fingri niður í kok alveg eins og pabbi hans gerir stundum á sunnudögum. Hermann stingur fingrinum svo langt niður að hann getur næstum því potað í laufblaðið. Og þá kemur það upp á fullri ferð, sömu leið og nestið og karamellurnar tvær sem hann fann á leiðinni í skólann. Laufblaðið er ennþá rautt og lyktin af því verri en af leikfimiskónum hans. Vindhviða sópar því út á götu og það veltur upp á rönd eftir rennusteininum þar til það hverfur niður um grindina á niðurfalli. Hermann réttir úr sér og líður strax betur. Það var eiginlega synd með karamellurnar, hugsar hann með sér og veltir því fyrir sér hvort hann eigi að borða þær aftur. Hann gerir það og röltir í rólegheitum eftir Gøbelsgate. Tré plús tré plús tré er skógur, segir Hermann upphátt. En hvað er einu sinni einn? Hlýtur að vera einmana skógur.
Hann fer að rigna. Hermann nennir samt ekki að hlaupa síðasta spölinn. Um leið og hann fer fyrir hornið opnar Panturinn gluggann á fyrstu hæð og sýnir á sér fésið sem er ryðgað og magurt. Sagan segir að Panturinn hafi einu sinni...




