E-Book, Icelandic, Deutsch, 326 Seiten
Knudsen K fyrir Klara 1-23
1. Auflage 2025
ISBN: 978-87-27-21699-7
Verlag: SAGA Egmont
Format: EPUB
Kopierschutz: 6 - ePub Watermark
E-Book, Icelandic, Deutsch, 326 Seiten
            ISBN: 978-87-27-21699-7 
            Verlag: SAGA Egmont
            
 Format: EPUB
    Kopierschutz: 6 - ePub Watermark
Line Kyed Knudsen (f. 1971) er danskur rithöfundur. Hún gaf út sýna fyrstu bók árið 2003 og hefur síðan skrifað fjölda skáldsagna í flokki barna- og ungmennabóka. Line hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar á ferlinum og njóta bækur hennar mikilla vinsælda meðal yngri kynslóðarinnar í Danmörku.
Autoren/Hrsg.
Weitere Infos & Material
Heima hjá Möllu
Á mánudeginum masa Júlía og Malla stöðugt um það sem þær gerðu á föstudeginum.
„Við fórum rosalega seint að sofa,“ segir Júlía montin.
Rósa er föl á vangann. Hún segir ekki neitt.
„Viltu gista hjá mér á föstudaginn?“ spyr Klara stuttu síðar.
„Allt í lagi,“ segir Rósa og hóstar.
Það er leikfimitími á eftir. Salurinn er kaldur en Klöru er heitt eftir hlaupin. Það er frábært að vera orðin frísk. Það er miklu betra að vera í skólanum.
„Við ætlum að sofa saman aftur á föstudaginn!“ hrópar Malla þegar tíminn er búinn. „Það er hryllingsmynd í sjónvarpinu!“
„Oh, já!“ segir Júlía spennt. Hún horfir á Rósu og Klöru. „Viljið þið vera með?“
Rósa og Klara horfa hvor á aðra. Klara fær fiðring í magann hún er svo spennt.
„Ef þið þorið,“ segir Malla og horfir lengi á Rósu. „Þetta er alvöru slettumynd!“
Klara kinkar bara kolli. Hún veit ekki alveg hvað slettumynd er.
Rósa kinkar líka kolli en segir ekkert.
#
Klara bíður til miðvikudagsins með að spyrja mömmu sína. Þær eru í eldhúsinu og Klara dregur djúpt andann. Mamma hennar skolar af leirtauinu og Klara raðar í uppþvottavélina.
„Mamma,“ segir Klara og heldur fast um diskinn.
„Já, elskan,“ segir mamma hennar og vindur borðtusku. Það er dauðaþögn í húsinu. Pabbi hennar er enn þá í vinnunni.
„Ég er orðin alveg frísk og ég var að spá...“ Klara þorir næstum því ekki að spyrja. Hún gæti ekki tekið því ef mamma hennar segði nei. „Það skiptir mig rosalega, rosalega miklu máli...“ Klara glennir upp augun. Hún reynir að vera biðjandi á svipinn. Það lendir vatnsdropi á fætinum á henni. „Má ég gista hjá Möllu á föstudaginn?“
Mamma hennar Klöru skrúfar fyrir vatnið. Það er þögn.
„En við verðum að vakna snemma á laugardaginn, Klara. Við erum að fara í afmæli til ömmu þinnar.“
Klara lokar uppþvottavélinni dálítið harkalega. „En við erum ekki að fara að gera neitt á föstudaginn, mamma.“
„Mér finnst þetta ekki góð hugmynd,“ segir mamma hennar og lítur undan.
Klara skilur þetta ekki. Hún skilur ekki hvernig mamma hennar getur verið svona vond.
„En Rósa og Júlía mega gista!“
Mamma hennar andvarpar og fer inn í stofu. Klara hleypur á eftir henni.
„Ég missi af öllu! Ég má ekki renna mér á sleða! Ég má ekki gista hjá Möllu!“ hrópar hún.
#
Klara er inni hjá sér. Hún hefur fest miða á hurðina og á honum stendur:
„Ekki koma inn, leiðinlegasta mamma í heimi!“
Það er kominn háttatími þegar pabbi hennar bankar á hurðina. Hann sest á rúmið hjá Klöru.
„Allt í lagi, þú mátt gista hjá Möllu,“ segir hann hljóðlega.
„Ha?“ segir Klara hissa.
„En þú verður að koma snemma heima á laugardaginn!“ kallar mamma hennar úr stofunni.
Klara faðmar pabba sinn.
„Takk,“ segir hún glöð. „Þú hefur bjargað lífi mínu!“ Hún tekur miðann niður og daginn eftir eru þær mæðgurnar aftur orðnar vinkonur.
#
Loksins rennur föstudagurinn upp. Klöru er illt í maganum af spenningi. Hún hefur aldrei komið heim til Möllu.
Malla á heima í hinum enda borgarinnar og pabbi Klöru keyrir Klöru og Rósu þangað. Þær eru með töskur og svefnpoka. Rósa hringir á dyrabjöllunni og Malla kemur til dyra. Þau heyra háværa tónlist berast frá stofunni.
„Við Júlía erum að dansa,“ hrópar Malla.
Pabbi hennar Klöru stendur við dyrnar á meðan Rósa og Klara fara inn í forstofuna.
„Bless, pabbi,“ flýtir Klara sér að segja.
„Er mamma þín heima?“ spyr pabbi hennar Klöru og horfir á Möllu.
„Hún fór út í búð,“ segir Malla og horfir niður á tærnar á sér.
Það er drasl í stofunni. Þær dansa í sófanum af því að Malla segir að þær megi það en Klara heldur fyrir eyrun. Malla hefur hækkað tónlistina í botn. En þetta er líka dálítið kúl.
#
Þegar mamma hennar Möllu kemur heim finnst Klöru hún vera mjög þreytulega að sjá. Hún hefur keypt pítsur handa þeim og þær borða á rúminu hennar Möllu og horfa á sjónvarpsþátt um meidd dýr.
Klöru finnst þátturinn ógeðslegur og hún vorkennir dýrunum. Hún lítur undan og missir pítsuna sína ofan á svefnpokann sinn.
„Ætlum við ekki að horfa á Walt Disney mynd?“ spyr hún lágt.
Rósa kinkar kolli. Hún er komin í náttkjólinn sinn og hefur skriðið ofan í svefnpokann.
Malla horfir á Júlíu. „Ég meina það,“ segir hún. Er það ekki dálítið barnalegt? Júlía kinkar kolli.
„Ég vil frekar horfa á dýralífsþáttinn,“ segir hún með fullan munninn. Rósa geispar. Klara getur ekki klárað pítsuna. Hún er þyrst svo hún fær sér sopa af gosinu. Júlía talar og talar á meðan Malla hoppar í rúminu með fjarstýringuna í hendinni. Hún skiptir svo fljótt á milli stöðva að Klöru svimar.
„Hryllingsmyndin er að byrja!“ segir Malla og slekkur ljósið. Klara er komin ofan í svefnpokann sinn og starir á sjónvarpið. Myndin er mjög óhugnanleg og Klara felur sig á bak við kodda. Júlía tekur andköf en Malla kinkar kolli og hlær. Klara lítur á Rósu. Hún er sofnuð.
Klara er orðin alveg stíf þegar myndin er búin. Henni er líka illt í maganum. Hún er klístruð í munninum og hana langar að bursta í sér tennurnar.
„Hvenær förum við að sofa?“ spyr hún og nuddar í sér augun.
Malla horfir undrandi á hana en Júlía segir ekkert. Hún situr á gólfinu með fjarstýringuna. Hún geispar og ýtir á takkana þangað til hún finnur rás með tónlistarmyndböndum. Júlía leggst út af.
„Ég má vaka eins lengi og ég vil um helgar,“ segir Malla. Klara kinkar kolli.
Hún skilur þetta ekki. Mamma hennar Möllu hefur ekki einu sinni komið til að bjóða góða nótt og klukkan er að verða tólf.
Klöru verkjar í hálsinn og hún þarf að pissa en hún þorir ekki að fara fram á gang.
Nú er Júlía líka sofnuð. Hún liggur með höfuðið á bangsa.
„Viltu síðasta nammið?“ spyr Malla. Klara hristir höfuðið.
„Ættum við ekki að slökkva á sjónvarpinu?“ spyr hún. Malla ranghvolfir í sér augunum. „Ég get ekki sofnað ef það er slökkt...





